Aðgengi fyrir alla

AÐGENGI FYRIR ALLA

Í lok sumars 2005 hófst vinna við verkefnið “Aðgengi fyrir alla innan Ferðaþjónustu bænda” en frumkvæðið að verkefninu átti Þórunn Edda Bjarnadóttir og sá hún einnig um framkvæmd þess í samvinnu við gæðastjóra Ferðaþjónustu bænda, Berglindi Viktorsdóttur.

Hægt er að leita eftir þeim bæjum sem hafa bætt aðgengi á leitarvélinni á forsíðu vefsins undir liðnum "Ítarleg leit"
 
Markmið verkefnisins
Verkefnið gekk út á að kanna aðgengi fatlaðra hjá þeim 150 ferðaþjónustuaðilum sem eru innan Ferðaþjónustu bænda og fá þar með heilstæða mynd af stöðu þessara mála. Niðurstöður verkefnisins yrðu notaðar til að koma þessum upplýsingum á framfæri við notendur þessarar þjónustu og einnig til að veita ferðaþjónustuaðilum upplýsingar um stöðu þeirra staða mtt. aðgengi.
Ætla má að sjöttungur þjóðarinnar sé hreyfihamlaður á einhvern hátt hvort sem þeir eru bundnir í hjólastól eða eiga erfitt með gang sökum aldurs. Ferðaþjónusta bænda vill með þessu verkefni stíga skref í þá átt að sinna þörfum þessara ferðamanna.
 
Ávinningur verkefnisins
Ávinningur verkefnisins er tvíþættur. Nákvæmari upplýsingar til ferðamanna um staði sem hafa aðgengi fyrir fatlaða skv. ákveðnum viðmiðunum. Fyrir Ferðaþjónustu bænda er hér um mikilvægt gæðamál að ræða sem miðar að því að framfylgja ýmsum opinberum reglum og fyrirmælum. Fyrir vikið mun markhópurinn stækka og markaðsímyndin verða enn betri ef vel tekst til.
 
Framkvæmd
Framkvæmd verkefnisins skiptist í (A) kynningu á verkefninu fyrir ferðaþjónustubændum. (B) Heimsókn á 150 bæi innan Ferðaþjónustu bænda þar sem gert var stöðumat á aðgengi fatlaðra. (C) Úrvinnsla, skýrslugerð og kynning á niðurstöðum.
 
Hagnýting niðurstaðna
Með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða hvort sem er á náttúruverndarsvæðum, ferðaþjónustubæjum eða öðrum stöðum gefur það fötluðum aukið frelsi til að ferðast um landið hindrunarlaust og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.
 
Bætt upplýsingagjöf í bæklingum Ferðaþjónustu bænda og á heimasíðum mun leiða til þess að bæði starfsmenn á ferðaskrifstofum og ferðamenn á eigin vegum munu geta stuðst við áreiðanlegri upplýsingar um þessi mál. Þá mun verkefnið eflaust vekja marga ferðaþjónustubændur til umhugsunar varðandi þessi mál og hvetja fleiri til að gera betur á þessu sviði.

Að lokum má ekki gleyma því að gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða þýðir gott aðgengi fyrir alla og því ætti verkefnið að koma öllum til góða.
 
Smellið >HÉR< til að opna handbók með aðgengisstöðlum sem kemur að gagni þegar hugað skal að nýbyggingum eða við endurbyggingu.
 
Styrktaraðilar verkefnisins voru:
- Framleiðnisjóður landbúnaðarins
- Samgönguráðuneytið
- Félagsmálaráðuneytið
- Umhverfisráðuneytið